Lífið

Hræringar í hárgreiðslubransanum

Böddi og Simbi eru í skýjunum með eigendaskiptin en Böddi keypti hárgreiðslustofuna Jóa og félaga af Simba á dögunum.
Böddi og Simbi eru í skýjunum með eigendaskiptin en Böddi keypti hárgreiðslustofuna Jóa og félaga af Simba á dögunum. MYND/Valgarður

Hárgreiðslumaðurinn Böðvar Þór Eggertsson, eða Böddi, hefur keypt hárgreiðslustofuna Jói og félagar auk Paul Mitchell heildsölunnar af Sigmundi Sigurðssyni, eða Simba, sem hefur átt stofuna frá upphafi.

„Við ætlum ekki að breyta neinu í rekstri stofunnar heldur bara halda sama starfsfólki og sama klassa og verið hefur,“ segir Böddi, sem starfað hefur á hárgreiðslustofunni Solid undanfarin ár. „Við fáum samt líklega meira af góðu fólki til okkar og söfnum saman í gott teymi. Heildsöluna ætla ég samt að reyna að efla heilmikið á næstunni. Svo er bara að fylgjast vel með og vera inni í öllu, hafa frábæra stemningu og húmorinn í lagi. Það er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Böddi hress og kátur.

Simbi ætlar að starfa áfram á Jóa og félögum og leigja stól af Bödda. „Ég held bara áfram og sé til þess að hann fari vel með þetta allt saman og verð með puttana í þessu alveg eins og ég mögulega get,“ segir hann og hlær. „Ég vil náttúrlega ekki sjá á eftir þessu öllu saman nema þetta sé vel gert þannig að ég verð með augun úti um allt.“

Simbi segist eiginlega vera að snúa dæminu við því flestir byrji á því að leigja sér stóla og fari síðan út í rekstur en hann ætli sjálfur að enda á að leigja stól. „Annars er ég nú ekkert að fara að hætta enn þá því ég er náttúrlega svo ungur enn. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að hætta með stofuna núna er að ég var orðinn leiður á rekstrinum þannig að mig vantaði svona smá púst. Betra og kröftugra púst hefði ég ekki getað fengið en Böðvar Þór,“ segir Simbi og er hæstánægður með breytingarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.