Erlent

Fimmtíu milljarða króna þarf til neyðaraðstoðar til handa konum og börnum árið 2006

Mynd/AP

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF, þarf um fimmtíu milljarða króna árið 2006 til að hjálpa börnum og konum í aðstæðum sem samtökin skilgreina sem neyðarástand. Fyrirhugað er að rúmur þriðjungur þeirrar upphæðar fari til hjálpar börnum í Súdan en alls segja samtökin neyðarástand ríkja á 29 svæðum í heiminum.

Þetta kemur fram í ársskýrslu UNICEF, Humanitarian Action Report, um neyðaraðstoð fyrir árið 2006. Í henni kemur fram hvaða verkefni eru brýnust og hvað UNICEF þarf mikinn fjárstuðning til að geta mætt þörfum barna og kvenna í viðkomandi löndum. Af þeim 29 svæðum sem UNICEF segir neyðarástand ríkja á eru 21 í Afríku, tvö í Ameríku, tvö í Kákasushéruðunum og þrjú til viðbótar í Asíu, að Palestínu ógleymdri.

Neyðaraðstoð UNICEF felst í að hjálpa fólki að komast af, veita því grundvallarþjónustu og þjálfun í kennslu, barnavernd, hreinlæti, næringu og heilsugæslu. Þá dreifir UNICEF námsefni, meðhöndlar börn sem þjást af vannæringu, veitir aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, bólusetur tugi milljóna barna gegn sjúkdómum og fær börn frelsuð úr ánauð.

Þrátt fyrir að fjárstuðningur við UNICEF hafi aldrei verið meiri en síðastliðið ár, fengu aðeins fjögur neyðarsvæði af 25 það árið yfir 50 prósent af þeirri upphæð sem til þurfti. Samtökin leggja áherslu á að þrátt fyrir að ákveðnir harmleikir hafi fengið heimsathygli sé neyðarástand í löndum sem ekki hafi fengið næga athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×