Innlent

Sýknaður af ákæru um fíkniefnabrot

Héraðsdómur Norðurlands eystra sýknaði í dag karlmann af ákæru um fíkniefnabrot sem átti að hafa átt sér stað um síðustu verslunarmannahelgi.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft nærri tvö grömm af amfetamín bíl sínum þegar lögregla leitaði þar og fyrir að gleypa um þrjú grömm af amfetamíni um leið og lögreglan ætlaði að handtaka hann.

Fyrir dómi sagðist maðurinn ekki eiga fíkniefnin sem fundust í bílnum og bar því við að hann hefði keyrt um hundrað manns á milli tjaldsvæðisins við KA-heimilið og miðbæjar Akureyrar umrædda helgi og að einhver þeirra ættu efnið. Þótti dómnum með þessum skýringum ekki sannað að maðurinn hefði haft amfetamínið í vörslu sinni.

Maðurinn viðurkenndi að hafa gleypt þrjár kúlur en ekki vitað hvað það var sem hann gleypti. Lögreglumenn töldu manninni hafa við yfirheyrslur sýnt vaxandi merki þess að vera undir áhrifum örvandi lyfja en engin sýni voru tekin úr honum til könnunar. Þykir dómnum með þessu ekki sannað að amfetamín hafi verið í þeim töflum þeim sem maðurinn gleypti. Var hann því einnig sýknaður af þeirri ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×