Innlent

Dómarar detta í lukkupottinn

Þingmenn, ráðherrar og æðstu embættismenn fengu vænar launahækkanir, samkvæmt ákvörðun Kjararáðs í dag. Sex komma fimm prósenta launahækkun fellur þeim í skaut. Dómarar detta í lukkupottinn þar sem þeir fá, þessu til viðbótar, launahækkanir frá í fyrra sem ríkið afnumdi með lögum, til baka með dómsúrskurði.

Kjararáð tók við í janúar af Kjaradómi og kjaranefnd sem áður kváðu upp úrskurði um laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra og embættismanna annarra en tollvarða og lögreglumanna. Tildrög breytinganna var óánægja með átta prósenta launahækkun sem ákveðin var á sama tíma í fyrra.

Kjararáð hefur nú ákveðið að laun þeirra sem heyra undir ráðið, þar meðal þingmenn, ráðherrar, forseti og dómarar, skuli hækka um 3,6 prósent afturvirkt frá 1. október 2006 og aftur um 2,9 prósent um áramót.

Í úrskurði ráðsins nú segir að hækkanirnar séu tilkomnar vegna mikilla launahækkana á vinnumarkaði.

Úrskurðurinn nú hefur í för með sér að laun forseta Íslands hækka úr 1620 þúsund á mánuði í 1726 þúsund. Laun forsætisráðherra fara úr 966 þúsundum í eina milljón og þrjátíu þúsund. Aðrir ráðherrar höfðu 871 þúsund en fá 928 þúsund. Þingmenn höfðu fjögurhundruð áttatíu og fimm þúsund krónur en fá fimmhundruð og átján þúsund eftir hækkunina.

 

Kjaradómur hafði ákveðið í fyrra að laun þeirra ættu að hækka um átta prósent en dómarar fengu bara hluta þeirra hækkunar, líkt og aðrir sem undir dóminn heyrðu, eða tvö komma fimm prósent vegna íhlutunar ríkisvaldsins.

Dómarar detta í lukkupottinn þar sem úrskurðurinn féll áður en kjararáðsmönnum var kunnugt um að Héraðsdómur hefði í gær kveðið upp þann dóm að launahækkunin sem Kjaradómur úrskurðaði í fyrra skyldi víst falla dómurum í skaut enda stangaðist íhlutun löggjafans og framkvæmdavaldsins á við lög um sjálfstæði og óhæði dómara.

Héraðsdómarar hafa 655 þúsund í dag en fá 699 þúsund eftir hækkunina nú. Hæstaréttardómarar höfðu 836 þúsund en fá 891 þúsund eftir hækkunina. Fái dómarar til viðbótar þau fimm komma fimm prósent sem ríkisvaldið felldi úr gildi í fyrra fá Héraðsdómarar, 732 þúsund krónur í laun og Hæstaréttardómarar 933 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×