Erlent

Mladic verður framseldur

Serbar hafa fullvissað fulltrúa stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag í Hollandi um að Ratko Mladic, fyrrverandi hershöfðingi Bosníu-Serba, verði afhentur dómstólnum fyrir lok apríl. Mladic hefur verið eftirlýstur fyrir stríðsglæpi í rúman áratug.

Það var síðla í febrúar sem stjórnvöld í Belgrad voru sögð standa í samningaviðræðum við Ratko Mladic, fyrrverandi hershöfðingja Bosníu-Serba, um að gefa sig fram. Hann hefur verið eftirlýstur af stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í rúm tíu ár.

Dómstólilinn ákærði Mladic fyrir þjóðarmorð árið 1995. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa fyrirskipað fjöldamorðin í Srebrenica þar sem átta þúsundir voru stráfelldar. Fullyrt hafði verið skömmu áður að Mladic hefði verið handtekinn í Belgrad en serbneska ríkisstjórnin neitaði því.

Serbar hafa nú fullvissað fulltrúa stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag í Hollandi um að Mladic verði afhentur dómstólnum fyrir lok apríl. Talsmaður Cörli del Ponte, saksóknari dómstólsins, upplýsti um þetta í morgun. Hann sagði Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, hafa staðfest þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×