Skoðun

Er óeigingirni guðleg?

Á dögunum varði sr. Hildur Eir Bolladóttir þann sjálfsagða rétt guðfræðinga að tjá sig opinberlega um siðferðileg ágreiningsmál með þeim furðulegu rökum að „siðfræði er guðfræði“. Í þessum orðum kristallast sú sjálfhverfa skoðun sumra guðfræðinga að rætur allrar siðlegrar breytni liggi í trúnni á Guð Biblíunnar.

Sr. Sigurður Árni Þórðarson endurspeglaði þessa trú nýverið í prédikuninni „Guðlast“, þar sem hann segir m.a.: „Ef Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum hverfi gildin, hverfi munur góðs og ills, hverfi siðgreind fólks og þar með verði allt flatt. Allt flýtur“. Eins og flestum ætti að vera ljóst er þessi skilningur að siðlegri breytni mannsins í besta falli vafasamur, enda felst í honum að þeir sem ekki trúa á Guð Biblíunnar séu siðblindir. Hér á eftir ætla ég að fjalla um rannsóknir sem varpa nýju ljósi á grundvöll mannlegrar breytni.

Frá lokum síðustu ísaldar hefur maðurinn smátt og smátt lagt undir sig jörðina. Forsenda þessa er hæfileiki mannsins til þess að eiga samskipti við óskylda einstaklinga í mjög stórum hópum, sem byggist fyrst og fremst á trausti. Hvað er það í fari mannsins sem gerði honum þetta kleift? Eins og hagfræðingurinn Herbert Gintis bendir á í greininni „Material Sense and Material Interest“ (Social Research, 2006) hafa, auk kristninnar, þrjú megin svör við þessari spurningu tekist á í evrópskri menningu frá tímum upplýsingarinnar.

Rómantíska viðhorfið, sem rekja má til Rousseau og Marx, er að maðurinn sé að eðlisfari góður og óeigingjarn, en hafi spillst vegna efnishyggjunnar. Klassíska viðhorfið, sem rekja má til Hobbes og Humes og á sér marga fylgismenn innan hag- og þróunarlíffræði, gengur út á það að maðurinn sé að eðlisfari eigingjarn og að allt óeigingjarnt atferli sem hann sýnir sé sprottið af eigingjörnum hvötum. Þriðja viðhorfið, sem rekja má til Lockes og á sér marga fylgismenn innan félags- og mannfræði, gengur út á að maður fæðist ekki með neitt eðli, þ.e. sé óskrifað blað við fæðingu, og mótist af því félagslega umhverfi sem hann fæðist inn í. Nýjar atferlisrannsóknir Gintis og félaga hafa leitt í ljós að þessi þrjú viðhorf hafi öll eitthvað til síns máls, en eins og Gintis bendir á eru þau ein og sér „algjörlega ófullnægjandi“.

Það sem hlýtur að teljast markverðast við þessar rannsóknir er það sem kallað er sterk gagnkvæmni (strong reciprocity), sem felur í sér tilhneigingu til óeigingjarns samstarfs við aðra, og að refsa þeim sem brjóta reglur samstarfsins á eigin kostnað, jafnvel þegar ólíklegt er að kostnaðurinn verði bættur. Rannsóknir á svo kölluðum úrslitakostaleik eru eitt dæmi um hvað í þessu felst, en hann er spilaður af tveimur einstaklingum og getur útkoman á verið á bilinu 1-10.

Þegar leikurinn er spilaður kemur sjálfselska útkoman, þ.e. 1, aldrei fram. Meðal háskólanemenda er útkoman 43-48%. Til þess að svara þeirri gagnrýni að háskólanemendur á Vesturlöndum sé alltof einsleitur hópur til þess að hægt sé að draga almennar ályktanir af þessum rannsóknum gerðu Gintis og félagar tilraunir með úrslitakostaleikin í fimmtán „frumstæðum“ samfélögum, sem tilheyrðu 12 löndum í fjórum heimsálfum, og var útkoman þar á bilinu 26-50%. Í þessu felst, eins og Gintis bendir á, að hugmyndin um „sjálfselskt atferli fær ekki stuðning í neinu samfélaganna sem rannsökuð voru“.

Í áður nefndri prédikun er vísað í rithöfundinn Dostojevskíj sem „minnti á að: ‚Ef Guð er ekki til er allt leyfilegt“. Í þessu ljósi er athyglisvert að horfa til Bandaríkjanna sem er langtrúaðasta þjóð Vesturlanda. Hjá þessari ríkustu þjóð heims eru um 40 milljónir einstaklinga án sjúkratrygginga. Bandaríkin hafa langhæsta hlutfall fanga í heiminum, eða 714 á hverja 100.000 íbúa, og eru þær rúmu tvær milljónir sem eru í fangelsum í Bandaríkjunum 23% af áætluðum fangafjölda í heiminum meðan Bandaríkjamenn telja 5% af heildarfjölda mannkyns.

Af þessu má ljóst vera að það er eitthvað fleira en trú á Guð sem ræður siðferði í Bandaríkjunum. Kannski er það sú staðreynd að þessi þjóð virðist leggja meiri áherslu á eigingirnina en aðrar þjóðir? En eins og rannsóknirnar sem hér hafa verið kynntar sýna er mannkyn „þríeitt“ og er tilvist óeigingjarnra einstaklinga ekki háð tilvist hins meinta Guðs kristinna manna. Hún grundvallast á trausti manna á meðal sem auk menningarlegra áhrifa virðist samkvæmt nýrri rannsókn að einhverju leyti stjórnast af hormóninu oxytoxin. 




Skoðun

Sjá meira


×