Lífið

Hudson slær í gegn

Jennifer komst í úrslit í þriðju seríu af American Idol en datt snemma út þegar þangað var komið.
Jennifer komst í úrslit í þriðju seríu af American Idol en datt snemma út þegar þangað var komið.

Jennifer Hudson heitir nýjasta stjarna Hollywood, en hún fer með eitt aðal­hlutverkanna í kvikmyndinni Dreamgirls sem hefur gert það afar gott í Bandaríkjunum á haustmánuðum.

Jennifer kom fyrst fram í þriðju seríu af sjónvarpsþættinum American Idol, þar sem hún komst áfram í tíu manna hópinn en féll svo úr leik stuttu síðar. Óhætt er að segja að Jennifer hafi nú náð meiri frama en sigurvegari keppninnar, en margir gagnrýnendur spá að frammistaða hennar í kvikmyndinni muni tryggja henni tilnefningu til Óskarsverðlaunanna, en nú um helgina lenti hún í öðru sæti í flokknum besta leikkona í aukahlutverki þegar kvikmyndaverðlaun gagnrýnendasamtaka Los Angeles voru veitt.

Sagði meðal annars söngvarinn Elton John að kynþáttur stúlkunnar hafi ráðið ferð þegar hún féll úr Idol, en hann telur að Bandaríkjamenn hafi síður viljað svartan sigurvegara tvö ár í röð, en Ruben Studdard vann keppnina árið áður. Allt kom þó fyrir ekki og ung stúlka að nafni Fantasia vann keppnina.

Kvikmyndin Dreamgirls er endurgerð á samnefndum söngleik frá árinu 1981 og rekur hún sögu stúlknasveitar á Motown- árunum og hvernig þær hægt og rólega ná heimsfrægð með öllum þeim vandamálum sem því fylgir. Ásamt Jennifer leika í kvikmyndinni söngkonan Beyoncé Knowles, Eddie Murphy, Jamie Foxx og Danny Glover.

Er sagt að Jennifer gefi Beyoncé ekkert eftir á hvíta tjaldinu, hvorki í leik né söng, en segir Jennifer sjálf að það hafi verið undarlegt að leika við hlið Beyoncé þar sem hún hafi verið hennar helsti aðdáandi um árabil. Dreamgirls er fyrsta kvikmynd Jennifer og alveg örugglega ekki sú síðasta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.