Lífið

Á ófyrirséðu flakki

Rithöfundurinn Jorge Luis Borges.
Handritin verða læst inni í skáp að nýju.
NordicPhoto/ getty images
Rithöfundurinn Jorge Luis Borges. Handritin verða læst inni í skáp að nýju. NordicPhoto/ getty images

Örvæntingarfullri þriggja vikna leit starfsmanna bókabúðarinnar Lame Duck í Cambridge í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum að tveimur handrita argentínska rithöfundarins Jorge Luis Borges lauk á mánudag þegar gersemarnar fundust í versluninni.

Greinir fréttavefur Yahoo! frá þessu vandræðalega tilstandi. Bókabúð þessi selur sjaldgæfar bækur, listmuni og handrit en starfsmenn hennar týndu eða töldu að handritunum tveimur hefði verið stolið á nýafstaðinni bókasýningu. Handritin tvö, „Pierre Menard, höfundur Don Quixote“ og „Babelbókasafnið“, sem bæði voru gefin út árið 1939, eru metin á rúmar 66 milljónir íslenskra króna.

Alþjóðalögreglan Interpol, sem berst jafnan af elju gegn fjölþjóðlegri glæpastarfsemi, var komin í málið ásamt fagaðilum á staðnum en handritin voru venju bundið læst inni í peningaskáp.

Haft er eftir eiganda verslunarinnar, John Wronoski, að hann hafi verið skömmustulegur en ósköp feginn þegar handritin komu í leitirnar. Starfsfólkið hafði snúið versluninni á hvolf tíu eða tólf sinnum á undanförnum þremur vikum og honum sjálfum varla komið dúr á auga allan þann tíma.

Fundust handritin á endanum bak við ljósmynd í plastslíðri sem farið hafði verið með á téða bókasýningu en sem betur fer ratað á ný í þessa bókabúð Ófélegu andarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.