Sumarið er tími djassins og það færist í aukana að boðið sé upp á hverskyns djasshátíðir og uppákomur út á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu er líka talsvert um að fólk taki sig saman og haldi reglubundna djasstónleika, einkum á skemmti- og veitingastöðum sem vilja lífga upp á stemninguna með lifandi tónlist.
Veitingastaðurinn Jómfrúin í Lækjargötu hefur undanfarin ellefu ár staðið fyrir djasstónleikum síðdegis á laugardögum sem hafa spurst afar vel fyrir. Fara tónleikarnir jafnan fram utandyra ef veður leyfir en margir af þekktustu djassleikurum þjóðarinnar hafa troðið upp í Jómfrúarportinu ¿ í mismikilli sól, og leikið fyrir unnendur smurbrauðs og áheyrilegra tóna.
Einn yngsti skemmtistaðurinn í djammflóru borgarinnar er Q-bar í Ingólfsstræti sem nýlega hóf að skipuleggja djasstónleika á fimmtudagskvöldum undir yfirskriftinni Heita sætið og hafa ekki minni spámenn en söngkonurnar Andrea Gylfadóttir og Margrét Sigurðardóttir sungið á fjölum þess í góðum félagsskap.
Ekki svo langt frá býður skemmtistaðurinn Oliver á Laugavegi reglulega upp á fimmtudagsdjass og tónleika á sunnudögum þar sem The Jazzy Havanas Band fer á kostum.
Í Djúpinu í Hafnarstræti, hliðarsal veitingahússins Hornsins, eru líka haldnir djasstónleikar annað hvert fimmtudagskvöld en þar kemur söngvarinn Seth Sharp fram ásamt hljómsveit og syngur ljúflingslög með djassívafi.