Samkvæmt breska blaðinu Daily Mail eru bresku prinsarnir, Vilhjálmur og Harry, reiðir vegna mynda sem teknar voru af móður þeirra lífshættulega slasaðri eftir bílslysið í París.
Stevens lávarður birti í gær skýrslu um atburðarásina sem varð til þess að Díana prinsessa og unnusti hennar, Dodi Al Fayed, létust eftir bílslys árið 1997. Rannsóknin hefur staðið yfir í rúm þrjú ár og kostað breska ríkið tvær milljónir punda eða um 260 milljónir íslenskra króna. Ekki eru þó allir á eitt sáttir við niðurstöðuna og hefur faðir Dodi, Mohammed Al Fayed, lýst því yfir að lávarðinum hafi jafnvel verið mútað eða hótað. Lögfræðingar lífvarðarins Trevor Ress sem lifði af slysið segja hann ekki ætla að tjá sig um niðurstöðuna.
Buckingham hreinsuð
Talið er að Stevens hafi kynnt prinsunum tveimur innihald skýrslunnar á þriðjudagskvöldinu en hún er rúmar átta hundruð síður að lengd. Þar hrekur Stevens allar þær samsæriskenningar sem spruttu upp í kringum slysið en faðir Dodi, auðjöfurinn Mohammed Al Fayed, hélt því fram að breska konungsfjölskyldan hefði átt hlut að máli og jafnvel skipað fyrir um slysið vegna ástarævintýris sonar hans við bresku prinsessuna. Eins og kunnugt er hafði hirðin við Buckingham löngum horn í síðu Díönu eftir að hún skildi við Karl Bretaprins með miklum látum.
Í skýrslu Stevens kemur skýrt fram að það hafi verið ölvunarakstur franska bílstjórans Henri Paul sem hafi valdið slysinu en Mohammed Fayed lýsti því yfir í bandarískum viðtalsþætti að lávarðinum hefði verið mútað eða hótað til að hagræða niðurstöðunni. „Breska leyniþjónustan rændi tölvu Stevens fyrir sex mánuðum og hefur fundið eitthvað sem hann hefur talið að þyldi ekki dagsljósið," sagði Al Fayed sem hingað til hefur haldið því fram að Díana hafi verið ólétt þegar hún lést og að parið ætlaði að giftast. Skýrslan hafnar öllum slíkum vangaveltum og sagði Stev-ens á blaðamannafundi að í samtölum sínum við nána vini og ættingja prinsessunar hefði ekkert slíkt borið á góma.
Fegnir endanlegri niðurstöðu
Synir Díönu, Vilhjálmur og Harry, voru sagðir hafa fyllst viðbjóði samkvæmt Daily Mail þegar þeir lásu um hegðan paparazzi-ljósmyndara á slysstað. Í skýrslunni kemur fram að enginn þeirra ljósmyndara sem komu að slysinu hafi rétt Díönu hjálparhönd heldur frekar tekið af henni myndir, lífshættulega slasaðri. Samkvæmt blaðinu eru prinsarnir nú farnir að íhuga hvort ekki eigi að birta myndirnar til að varpa ljósi á starfshætti þessarar stéttar en myndirnar hafa aldrei komið fyrir sjónir bresks almennings.
Samkvæmt heimildarmanni Daily Mail innan bresku hirðarinnar hafa prinsarnir tveir aldrei trúað því að eitthvert samsæri bresku krúnunnar lægi að baki dauða móður þeirra og þeir séu einfaldlega fegnir að málið sé loks til lykta leitt. „Þeir trúa því að ef eitthvað gott hafi hlotist af slysinu sé það að einhverju ljósi sé varpað á glæpsamlega hegðun paparazzi-ljósmyndara," sagði náinn vinur prinsanna í samtali við blaðið. „Þeir hlakka til að halda minningartónleikana um móður sína og halda þannig nafni hennar á lofti á jákvæðan hátt," útskýrði heimildamaðurinn. „Loksins er þessu sársaukafullu tímabili í lífi þeirra að ljúka," bætti hann við.

.

.