Lífið

Víkin fær styrk

Sigrún Magnúsdóttir, forstöðumaður Víkur
Sigrún Magnúsdóttir, forstöðumaður Víkur

Sjálfseignarstofnunin Víkin sem stendur fyrir Sjóminjasafninu í Reykjavík á Grandagarði fær fjárstyrk sem nemur tíu milljónum á ári næstu þrjú ár. Safnið var stofnað fyrir tveimur árum og opnaði fyrstu sýningu sína á Hátíð hafsins snemmsumars það ár.

Það er til húsa í gömlu Bæjarútgerðarhúsunum á Granda og býr þar í skjóli Faxaflóahafna. Aðrir styrktaraðilar þess eru Reykjavíkurborg, Eimskip, Glitnir og HB Grandi. Standa nú vonir til að kippur komi í frágang á húsnæðinu.

Þrjár sýningar eru nú í safninu. Á næsta ári verður neðri hæðin tekin í notkun þegar opnuð verður glæsileg sýning í tilefni af 90 ára afmæli Reykjavíkurhafnar. Á sama tíma verða teknir í gagnið nýir inngangar og móttökusalur. Uppbygging Sjóminjasafnsins verður hluti nýja Mýrargötuskipulagsins og er safninu ætlaður veglegur sess í þeirri nýju hafnarmynd sem framkvæmdir eru hafnar við. Aðalinngangur safnsins mun þá verða frá höfninni, þar sem nú er Daníelsslippur, og nýr bryggjukantur verður á útisvæði safnsins.

Þann 26. október sl. voru stofnuð Hollvinasamtök varðskipsins Óðins og er eitt helsta markmið samtakanna að varðveita Óðin. Gert er ráð fyrir bryggjulægi framan við safnið þar sem Óðinn og Magni munu liggja, en Magni er fyrsta stálskipið sem smíðað var á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.