Erlent

Nýrri öryggissveit mótmælt

MYND/AP

Tugir vopnaðra Fatah-liða hröktu vara-forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna á flótta úr borg á Vesturbakkanum í morgun, þar sem hann var kominn til fundar. Spenna milli stuðningsmanna Hamas og Fatah á Vesturbakkanum hefur magnast síðustu daga, sér í lagi eftir að heimastjórn Hamas stofnaði eigin öryggissveit í gær.

Nasser Shaer, vara forsætisráðherra í stjórn Hamas-liða, mætti til fundar í bænum Tulkarem á Vesturbakkanum í morgun. Þar átti hann að ræða við ráðamenn á svæðinu. Skipti engum togum að byssumenn hliðhollir Fatah-hreyfingu Mahmouds Abbas, forseta, umkringdu fundarstaðinn. Shaer var færður út úr byggingunni í fylg lögreglu og segja sjónarvottar að heyra hafi mátt hleypt af byssum í bakgrunninum. Leiðtogi Al-Aqsa-herdeildanna í Tulkarem sagði Hamas-liða ekki velkomna þangað.

Spenna milli Fatah og Hamas-liða hefur magnast á Vesturbakkanum og Gaza-ströndinni síðustu dag og ekki bætti úr skák þegar Hamas-stjórnin tilkynnti í gær um skipan 3000 manna öryggissveitar á þeirra vegum. Sú skýring er gefin að þær sveitir sem fyrir séu hafi ekki staðið sig sem skyldi.

Fyrir mánuði skipaði Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, einn fylgismanna sinna sem stjórnanda stærstu og mikilvægustu sveitarinnar. Í morgun streymdu palestínskir lögreglumenn, hliðhollir Abbas, á götur Gaza-borgar og marseruðu rétt fyrir aftan liðsmenn nýju öryggissveitarinnar og söngluðu að þeir væru yfirvaldið og þeir hylltu Abbas.

Nýju sérsveitarmennirnir brugðust ekki ókvæða við því eða æfingum lögreglumannanna nálgæt eftirlitsstöðvum nýju sveitanna. Lögreglumennirnir voru óvopnaðir en yfirmenn þeirra fylgdu eftir á jeppum, gráir fyrir járnum.

Fregnir herma að Abbas hafi síðan í gærkvöldi krafist þess að Hamas-stjórnin leysti upp þessa nýju sveit. Það fer þvert á yfirlýsingar Ismails Haniyeh, forsætisráðherra í Hamas-stjórninni, sem sagði í morgun að fengist hefði samþykki forsetans fyrir skipan sveitarinnar og hún sé því skipað samkvæmt lagabókstafnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×