Innlent

Krefst fundar í samgöngunefnd

Jón Bjarnason, alþingismaður og fulltrúi Vinstri grænna í samgöngunefnd Alþingis, krefst fundar í samgöngunefnd vegna deilu flugumferðarstjóra og samgönguráðherra, og vill að Alþingi grípi þegar inn í málið. Hann leggur til að gildistöku laga um hlutafélagsvæðingu flugumferðarstjórnar um áramót, verði frestað, eða fallið verði frá lögunum.

Hann rifjar upp að þingmenn Vinstri grænna hafi á sínum tíma varað við að þessi staða gæti komið upp og segir brýnt að Alþingi komi með beinum hætti að lausn þessa alvarlega deilumáls. Hjálmar Árnason varaformaður nefndarinnar segist ekki sjá hverju nefndin sem slík fái áorkað við þessar aðstæður. Meirihluti hennar hafi mælt með frumvarpinu um breytingar og deilendur í málinu hafi skýrt sjónarmið sín fyrir nefndinni. Þetta sé að hluta kjaradeila, sem nefndin geti alls ekki gripið inn í.

Engar samningaviðræður eru í gangi og fyrir hádegi hafði engin af þeim tæplega 60 flugumferðarstjórum, sem ekki hafa ráðið sig hjá Flugstoðum, tilkynnt um breytingu á afstöðu sinni, þannig að málið er enn í hnút, og óðfluga styttist í áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×