Innlent

Tannheilsu íslenskra ungmenna hrakar

Tannheilsu íslenskra ungmenna hrakar, samkvæmt nýrri rannsókn sem er að ljúka. Einkum er glerungseyðing að aukast, sérstaklega hjá piltum, og fer það saman við meira gosdrykkjaþamb stráka.

Rannsóknin er gerð að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins og unnin í samstarfi tannlæknadeildar Háskóla Íslands, Lýðheilsustöðvar og Miðstöðvar tannverndar undir forystu Helgu Ágústsdóttur. Hún segir það mest sláandi hvað glerungseyðing meðal unglinga hefur aukist. Samanburður við rannsókn sem gerð var fyrir um áratug meðal reykvískra unglinga sýnir að glerungseyðing hefur farið úr 22 prósentum upp í 30 prósent. Athygli vekur að glerungseyðing mælist hjá mun fleiri piltum en stúlkum, eða 37 prósent strákanna.

Helga segir þetta fara saman við kannanir sem sýni að neysla gosdrykkja sé allt að því tvöfalt meiri hjá piltum en unglingsstúlkum. Hún segir Íslendinga fjarri því að ná markmiði sem sett var í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 um að koma tannskemmdastuðli meðal tólf ára barna niður í 1,0. Tannskemmdastuðullinn sé nú 1,4. Þegar hún er spurð hvað sé að þá bendir hún á gosdrykkjaþambið. Það sé allt of mikið meðal íslenskra unglinga. Helga segir það misskilning að sykurskertir gosdrykkir séu skárri en hinir. Þeir séu jafnslæmir og þeir sykruðu þegar komi að glerungseyðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×