Innlent

Búið að dæla upp úr tíu kjöllurum á Ísafirði

Slökkviliðsmenn og bæjarstarfsmenn á Ísafirði vinna enn að því að dæla vatni upp úr kjöllurum húsa á eyrinni eftir flóð í morgun. Þá fóru saman stórstraumsflóð og hvassviðri með þeim afleiðingum að það flæddi inn í fjölmarga kjallara og götur bæjarins fóru á flot.

Að sögn Þorbjarnar Sveinssonar, slökkviliðsstjóra á Ísafirði, er búið að dæla upp úr kjöllurum tíu húsa og enn er töluvert verk eftir. Býst Þorbjörn því við að slökkvililðsmenn og bæjarstarfsmenn verði áfram að störfum drjúgan tíma enn. Þorbjörn segir að vatn sé enn á götum bæjarins en nokkuð hafi gengið að dæla því burt.

Veður virðist eitthvað vera að ganga niður á Vestfjörðum eftir storminn í morgun en svo mikið var hvassviðrið að bíll sem skilinn hafði verið eftir við Óshlíð nálægt Skarfaskeri í gær fauk af veginum og ofan í fjöru. Að sögn lögreglu á Ísafirði er hann mjög illa farinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×