Innlent

Skipulagi flugumferðar breytt ef skortur verður á flugumferðarstjórum

Alþjóðaflugmálastofnunin hefur samþykkt aðgerðasáætlun flugmálastjóra sem gripið verður til ef skortur verður á íslenskum flugumferðarstjórum þann 1. janúar næstkomandi. Fram kemur í yfirlýsingu frá Flugmálastjórn að viðbragðsáætlunin feli í sér breytingu á skipulagi flugumferðar á íslenska flugstjórnarsvæðinu sem mun að mestu leyti fylgja föstum fyrirfram ákveðnum ferlum og flughæðum.

Fullt samstarf er við flugstjórnarmiðstöðvarnar í Prestwick í Skotlandi og Stafangri í Noregi um framkvæmd þessarar áætlunar og sama gildir um Flugstjórnarfélag Kanada. Þá mun flæðisstjórn flugumferðar í Brussel gegna veigamiklu hlutverki í þessari viðbragðsáætlun.

Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að flugumferð gangi greiðlega fyrir sig og að flugöryggi sé að fullu tryggt, þótt hugsanlega verði um tímabundinn skort á flugumferðarstjórum að ræða í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Þegar hefur verið boðaður fundur með flugrekstraraðilum þar sem viðbragðsáætlunin verður kynnt og farið yfir framkvæmd hennar og samráð hefur verið haft við Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) vegna áætlunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×