Innlent

Flæddi inn í fjölmarga kjallara á eyrinni á Ísafirði

Slökkvilið Ísafjarðar hefur staðið í ströngu vegna óveðursins sem gekk yfir Vesturland og Vestfirði í morgun. Stórstraumsflóð var við Ísafjörð í morgun sem ásamt hvassviðri olli því að það flæddi inn í fjölmarga kjallara á eyrinni á Ísafirði.

Þorbjörn Sveinsson, slökkiliðsstjóri á Ísafirði, sagði í samtali við fréttastofu að slökkviliðið væri með langan biðlista yfir fólk sem þyrfti aðstoð vegna vants í kjöllurum en vatn hafi flætt inn um kjallaraglugga. Um 15 slökkviliðsmenn hafa verið að störfum frá því klukkan sex í morgun og þá munu bæjarstarfsmenn einnig hafa verið kallaðir út til að dæla vatninu burt. Þorbjörn veit ekki hvenær dælingu lýkur en væntanlega verður unnið langt fram á dag.

Björgunarfélög á Ísafirði og í nágrannasveitarfélögum voru sömuleiðis kölluð út vegna óveðursins í morgun og unnu meðal annars að því að festa þakplötur og lausamuni ásamt því að sinna rúðubrotum í illviðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×