Innlent

Þúsundir flugfarþega biðu í dag

Þúsundir flugfarþega máttu bíða klukkustundum saman annan daginn í röð, bæði í innanlands- og millilandaflugi. Nokkrir komust þó á leiðarenda í dag eftir langa bið og fréttastofa hitti mann sem hafði beðið í fimm daga eftir að hitta barnabörnin.

Mikil samkeppni var um flugsætin í dag, sérstaklega til Akureyrar og mynduðust raðir langt út úr flugstöðinni um leið og tilkynnt var að hægt væri að hægt væri að fljúga norður í dag rétt fyrir ellefu í morgun. Færri komust að en vildu enda einungis 100 sæti í boði og sagan endurtók sig eftir hádegi, þegar aðrar tvær vélar fóru norður.

Flestir sýndu þó biðlund og duttu ekki úr jólaskapi þrátt fyrir biðina. Einn viðmælenda fréttastofu sagði bara vanta jólatré í innritunarsalinn, þau væru allavega byrjuð að kíkja í pakkana.

En gleðin var mikil fyrir þá sem komust á leiðarenda, sérstaklega fyrir Vestmannaeyinga, sem hafa beðið dögum saman eftir flugveðri, því Herjólfur hefur þar að auki gengið mjög stopult.

Engar flugvélar fóru frá Reykjavíkurflugvelli eftir klukkan fimm í dag og spáin er tvísýn fyrir fyrripartinn á morgun.

Miklar tafir hafa einnig orðið á millilandaflugi í dag. Síðustu morgunflugvélarnar fóru ekki í loftið fyrr en um og upp úr hádegi, þetta hefur áhrif á áætlun dagsins þar sem Evrópuvélarnar skila sér seint til Íslands aftur og því eru brottfarir til Bandaríkjanna einnig nokkrum tímum á eftir áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×