Innlent

Rennslið í Ölfusá náði í gær sexföldu meðalrennsli

Flóðið í Ölfusá við Selfoss náði hámarki upp úr klukkan fimm í gær, þegar rennslið náði rösklega sexföldu meðalrennsli árinnar, en síðan hefur sjatnað ört í ánni.

Fyrir stundu var rennslið komið niður í nítján hundruð rúmmetra á sekúndu, sem er um fimmfalt meðalrennsli. Dælingu úr nokkrum húsum, sem vatn hafði komist inn í, var hætt á sjötta tímanum í morgun.

Flóð á túnum og úthögum í uppsveitum Árnessýslu hafa víða sjatnað um 50 til 70 sentímetra en allir skurðir og farvegir eru enn yfir fullir. Vegurinn heima að Fjalli á skeiðum var að koma undan vatni, en bærinn hefur verið umflotinn síðan á miðvikudagskvöldið og heitavatnsleiðslan til bæjarins rofnaði í gær.

Ljóst er að gríðarlegar skemmdir haf orðið á girðingum og ýmsum öðrum mannvirkjum í uppsveitunum, auk þess sem hey hafa spillst eða hreinlega flotið burt. Vegir eru líka víða skemmdir og ekki hefur verið hægt að sækja mjólk heim að nokkrum bæjum. Almannavarnanefndir Árnessýslu ákváðu á fundi sínum í morgun að aflétta viðbúnaðarástandi í sýslunni vegna flóða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×