Innlent

Björguðu um 70 hrossum á Skeiðum

MYND/Friðrik Stöð 2

Björgunarfélag Árborgar hefur staðið í ströngu í dag vegna vatnavaxtanna í Hvítá og Ölfusá á Suðurlandi. Fyrr í dag komu þær yfir 70 hrossum til bjargar við bæinn Vorsabæ I á Skeiðum og voru hrossin rekin á sund með þremur eða fjórum bátum. Öll sluppu þau lifandi.

Að sögn Ingvars Guðmundssonar, formanns björgunarfélagins, er farið að sjatna í Hvítá uppi á Skeiðum en enn virðist vaxa í Ölfusá. Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að rennsli í Ölfusá við Selfoss sé nú 2321 rúmmetri á sekúndu.

Ingvar segir Brunavarnir Árborgar staddar í kjallara verslunarmiðstöðvarinnar Kjarnans í Árborg þar sem Nóatún er til húsa þar sem vatn er farið að leka inn og sömu sögu er að segja af Selfossbíói og kjallara Hótel Selfoss. Vatni er nú dælt út á öllum stöðum.

Ingvar segir aðspurður að björgunarsveitarmenn verði líklega að störfum fram á kvöld þar sem ekki sjái fyrir endann á vatnavöxtunum.

 

Almannavarnarnefndir funda
MYND/Friðrik Stöð 2

Fram kemur í tilkynningu lögreglu að björgunarsveitir hafi aðstoðað fólk sem var orðið innlyksa í sumarbústað í Merkurlaut á Skeiðum við að komast leiðar sinnar en nýr vegspotti frá Skeiðavegi hafði valdið vatnssöfnun þar fyrir ofan og var rofið skarð í hann til að koma í veg fyrir tjón á bústöðum. Það vatn mun skila sér niður í Mókeldu og verður fylgst með rennsli þar. Almannavarnarnefndirnar munu koma saman til fundar kl. 10 í fyrramálið að óbreyttu en náið verður fylgst með þróun mála og nefndirnar kallaðar fyrr saman verði talin þörf á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×