Innlent

Hugsanlega stærsta flóð í hálfa öld

Átta íbúðarhús eru innlyksa í Auðsholti og Hvítáin beljar allt um kring. Steinar Halldórsson, bóndi í Auðsholti í Hrunamannahreppi, segir fólkið vant vatnavöxtum en þetta gæti verið stærsta flóð síðan foreldrar hans fluttu að Auðsholti, fyrir 50 árum síðan. Og það rignir enn og vatnsborðið hækkar.

Flestum hestum var bjargað upp á hólinn sem bæirnir standa á þegar sást í hvað stefndi í gærkvöldi. Þrátt fyrir það eru um 100 hestar innlyksa á hólum í kringum bæinn og eru björgunarsveitir á leið að bjarga þeim.

"Það er bara allt á kafi," er það fyrsta sem Steinar sagði þegar Fréttastofa hringdi í hann. Það munar enn um einum og hálfum metra að vatnsyfirborðið nái lægstu íbúðar- og útihúsum en farið er að flæða inn í dæluhús sem sér bæjunum fyrir heitu og köldu kranavatni. Þegar Steinar er spurður hvort enn sé rennandi vatn í húsunum hlær hann við og segir að enginn skortur sé á rennandi vatni á svæðinu, það sé eitt sem ekki vanti.

Húsin standa uppi á hól alveg á bakka Hvítár. Steinar segir jakaburð hafa verið mikinn í nótt og rúllur hafi flotið niður með flóðinu. Hann býst fastlega við því að girðingar séu að miklu leyti farnar. Eins býst hann við að talsverðar skemmdir komi í ljós þegar vatnið réni.

Vegurinn að Auðsholti varð ófær í gærkvöldi, síðasti bíll sem fór um veginn um hálftólf var á 44 tommu dekkjum en þrátt fyrir það var hann í vandræðum. "Bílstjórinn hafði höndina út um gluggann og gat gutlað í vatninu með puttunum."

Steinar segir samt að ekki væsi um fólkið á Auðsholti, þar sé enn rafmagn, rennandi vatn í krönum og allt til alls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×