Innlent

Stjórn VG styður Álfheiði

Stjórn VG styður yfirlýsingu Álfheiðar Ingadóttur, fulltrúa flokksins í stjórn Landsvirkjunar, fyrr í dag. Álfheiður gekk af síðasta fundi núverandi stjórnar Landsvirkjunar í dag til að mótmæla því að raforkuverðið til Alcan sé ekki gefið upp. Í yfirlýsingu frá VG segir að slíkt standist ekki kröfur um opna og lýðræðislega stjórnsýslu.

"Stóriðjustefnan er keyrð áfram á fullri ferð þó að ýmsir ráðherrar séu á harðahlaupum undan henni og fyrri verkum Grænn hjúpur fulltrúa ólíkra flokka virðist ekki rista djúpt þegar á hólminn er komið," segir í yfirlýsingu sem stjórn Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs sendi frá sér í kvöld.

Ennfremur eru hinir stjórnmálaflokkarnir í landinu gagnrýndir fyrir óðagot í stjórnun Landsvirkjunar: "Þá vekur það athygli að fulltrúar annarra flokka en VG, þ.e. Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, í stjórn Landsvirkjunar, greiddu atkvæði með því að orkusöluverði til Alcan verði haldið leyndu fyrir eigendum Landsvirkjunar, þjóðinni. Slíkt stenst ekki kröfur um opna og lýðræðislega stjórnsýslu í rekstri opinberra fyrirtækja."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×