Innlent

Keflavíkurflugvöllur auðveldari eftir að herinn fór

Íslenskir aðilar eiga mun auðveldar með að athafna sig á Keflavíkurflugvelli eftir að herinn fór. Samgönguyfirvöld taka endanlega yfir rekstur flugvallarins af utanríkisráðuneytinu snemma á næsta ári. Flugmenn leggja áherslu á að flugbraut sem herinn lét loka verði opnuð á nýjan leik.

Við skyndilega brottför hersins þurftu menn að bregðast skjótt við í breytingum á resktri Keflavíkurflugvallar og enn er verið að undirbúa framtíðarskipan flugvallarins. Ýmis starfsemi, eins og rekstur flugbrauta, heyrir nú alfarið undir Íslendinga, sem enn sem komið er notast að hluta til við búnað sem leigður er af Bandaríkjaher. Leiga á snjóruðningstækjum er t.d. til ellefu mánaða en framlengja má leigutíma í fjögur ár að þeim tíma liðnum á flestum tækjanna. Á fundi sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna boðaði til í dag, sagði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, að hvergi verði slegið af kröfum um öryggi og gæði í resktri flugvallarins þegar hann fer undir ráðuneyti hans.

Sérstakur starfshópur var skipaður eftir að Alþingi setti lög um að starfsemi Keflavíkurflugvallar færi undir samgönguráðuneytið. Sturla býst við tillögum frá hópnum í febrúar og leggur áherslu á að eftir það verði unnið fljótt að því að færa starfsemina alla undir ráðuneytið. Stjórnsýslan fer þá undir Flugmálastjórn Íslands og sérstök flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli leggst af. Flugleiðsöguþjónustan fer undir Flugstoðir, nýtt hlutafélag í eigu ríkisins, sem tekur við allir flugstjórn og rekstri flugvalla um áramót, þegar starfsemi Flugmálastjórnar Íslands verður skipt upp.

Á fundinum kom fram í máli flugvallarstjórans, að Íslendingar eiga nú auðveldar með að athafna sig á Keflavíkurflugvelli, þegar ekki þarf að taka tillit til hersins. Suðvestu-Norðaustur flugbraut Keflavíkur var lokað fyrir nokkrum árum, og stefnt er að því að loka flugbraut sem liggur í sömu áttir í Reykjavík.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, varaformaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍIA) segir mjög mikilvægt að flugbraut sem þessi sé til staðar á suð-vesturhorni landsins. Samgönguráðherra tók ekki illa í að opna brautina í Keflavík á nýjan leik, en það mun hafa talsverðan kostnað í för með sér, þar sem allur ljósa- og aðflugsbúnaður var tekinn af brautinni þegar herinn lokaði henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×