Innlent

Hafnfirðingar kjósa fljótlega um stækkun álvers

Líkur eru á að Hafnfirðingar greiði atkvæði um stækkun álversins í Straumsvík innan fárra mánaða og jafnvel fyrir alþingiskosningarnar í vor. Samningar um sölu Landsvirkjunar á orku til álversins eru á lokastigi og sömuleiðis nýtt deiliskipulag fyrir stækkað álver.

Núverandi stjórn Landsvirkjunar kemur til síðasta fundar næst komandi föstudag, þar sem staðan í viðræðum við Alcan um orkusölu vegna stækkunar álversins verður kynnt. Það verður hins vegar ekki á könnu þessarar stjórnar að ganga frá samningunum heldur nýrrar stjórnar sem fjármálaráðherra mun skipa bráðlega á grundvelli nýrra laga um Landsvirkjun. Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan, segir viðræðurnar hafa gengið vel og þar á bæ vilji menn helst ljúka þeim fyrir áramót.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir rafmagnssölu Landsvirkjunar aðeins einn þátt af mörgum sem ganga verði frá áður en kemur að stækkun álversins. Hins vegar sé augljóslega hægt að ganga frá raforkusamningum með fyrirvara um að aðrir þættir nái einnig fram að ganga.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, segir að Hafnfirðingar geti jafnvel kosið um stækkun álversins á fyrstu mánuðum nýs árs. Það sé engin ástæða til að draga slíka atkvæðagreiðslu fram að alþingiskosningum, ef allar nausynlegar forsendur fyrir kosningunum liggi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×