Innlent

Telur dóm ekki hafa fordæmisgildi

Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður og stjórnarformaður OLÍS, telur dóm héraðsdóms yfir stóru olíufélögunum þremur ekki hafa fordæmisgildi fyrir önnur mál sem hugsanlega komi á eftir.

Þetta sagði hann í samtalið við fréttastofu Stöðvar 2 skömmu eftir að dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að olíufélögin þrjú, Ker, OLÍS og Skeljungur, skyldu greiða Reykjavíkurborg og Strætó um 78 milljónir króna í bætur vegna ólöglegs samráðs þeirra í tengslum við útboð borgarinnar árið 1996.

„Þetta er eina málið af öllum þeim sem voru rannsökuð í þessari stóru rannsókn þar sem að fyrir lá að félögin höfðu viðurkennt að hafa gert samráð um tilboð gagnvart þessum aðila og sammælst um verð. Það var játað fyrir fimm árum þannig að það kemur okkur ekki á óvart að það þurfi eitthvað að borga," sagði Gísli.

„Önnur mál eru ekki lík þessu máli að því leytinu til að lögfull sönnun í þeim, hún liggur ekki endilega fyrir," sagði Gísli enn fremur.

Aðspurður hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstarétttar sagði Gísli að félagið myndi lesa yfir dóminn og fara yfir rökstuðning héraðsdóms áður en sú ákvörðun yrði tekin. Félögin hefðu þrjá mánuði til að áfrýja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×