Innlent

Reykingar eru á hægri en stöðugri niðurleið

Reykingar minnka - Úr 30% í  18,8% á 15 árum
Reykingar minnka - Úr 30% í 18,8% á 15 árum MYND/ Gallup Capacent

Samvæmt samantekt Capacent Gallup fyrir Lýðheilsustöð er umfang reykinga á hægri en stöðugri niðurleið hér á landi. Helstu niðurstöðurnar í samntektinni eru, að 18,8% fólks á aldrinum 15-89 ára reykja daglega nú, miðað við 30% árið 1991. Kannað var umfang reykinga á Íslandi á árinu 2006. Kannanirnar fóru fram snemma árs, um mitt ár og í lok árs.

Aðeins fleiri karlar reykja. Munurinn á milli kynjanna er sá að 21% karla reykja daglega miðað við 17% kvenna. Lítill og ómarktækur munur greinist á hlutfalli kvenna og karla sem reykja af og til.

Eins og fyrri ár er töluverður munur á reykingum eftir aldri og nú sem fyrr eru reykingar algengastar hjá fólki á aldrinum 20-29 ára. Þar á eftir kemur aldurshópurinn 50-59 ára. Nú sem endranær eru reykingar einnig lang minnstar í elsta aldurshópnum (80-89 ára).

Háskólamenntað fólk reykir minnst allra, eða 8,3%, en þeir reykja mest (29,5%) sem eru einungis með grunnskólamenntun og viðbótarmenntun sem er minni en stúdentspróf. Einnig vekur athygli að í hópi háskólamenntaðra eru líka lang flestir sem hafa aldrei reykt, eða 57,7%.

Þegar bornar eru saman reykingar milli tekjuhópa kemur ekki fram eins augljós munur og á milli menntunarstigs. Reykingar minnka nokkuð eftir því sem fjölskyldutekjur hækka en munurinn er ekki eins afgerandi og þegar menntunin er skoðuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×