Innlent

Brandaraátak á Bylgjunni á Degi rauða nefsins

Bylgjan ætlar að brosa með UNICEF á Degi rauða nefsins föstudaginn 1. desember og verður með brandara- og fjáröflunarátak. Þetta er kjörið tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að leggja átakinu lið og styrkja bágstödd börn víða um heim. Söfnunin á Bylgjunni gengur þannig fyrir sig að einstaklingar og fyrirtæki geta keypt brandara á Bylgjunni föstudaginn 1. desember og mun allt andvirði renna til UNICEF. Bylgjan og UNICEF hvetja alla til að taka þátt og lyfta vinnuandanum í mesta skammdeginu um leið og góðu málefni er lagt lið.

Föstudagurinn á Bylgjunni verður helgaður Degi rauða nefsins í einu og öllu og munu þáttastjórnendur þá leggjast á eitt allan liðlangan daginn um að minna hlustendur á þetta göfuga söfnunarátak og hvetja þá til að leggja því lið með því að gerast heimsforeldrar. Meðal annars verður rykinu dustað af grín-innslögum sem tekin hafa verið upp í gegnum árin á Bylgjunni.

Dagur rauða nefsins verður haldinn hér á landi í fyrsta sinn á morgun og er markmiðið að safna fé fyrir börn sem eiga um sárt að binda í Afríku og að safna heimsforeldrum. Sérstök þriggja klukkustunda löng söfnunardagskrá verður í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 annað kvöld.

Dagur rauða nefsins gengur út á að gleðjast og gleðja aðra. Fyrirtæki hafa lagt átakinu lið með ýmsum hætti og ætla mörg hver að gefa starfsmönnum sínum rauð nef í tilefni dagsins.

Nánari upplýsingar á vef Bylgjunnar: Bylgjan.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×