Innlent

Álversáform við Þorlákshöfn

Arctus ehf, félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar verkfræðings og fleiri aðila, hefur fengið úthlutað lóð undir orkugarð vestan við Þorlákshöfn. og gerir ráð fyrir að þar verði reist verði álver, með 60 þúsund tonna framleiðslugetu á ári, og endurbræðsla sem bræðir ál til frekari vinnslu. Þetta kemur fram í Sunnlenska fréttablaðinu í gær.

Arctus var stofnað árið 2004 og samkvæmt heimildum Sunnlenska fréttablaðsins eru fjársterk risafyrirtæki, tengd áliðnaðinum í Bandaríkjunum og Asíu, á meðal bakhjarla félagsins í Þorlákshafnarverkefninu.

Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, segir í samtali við blaðið að sveitarfélagið og Arctus hafi átt í viðræðum við orkuframleiðendur um orkuöflun, en segir þær viðræður á frumstigi og ekki búið að ganga frá samningum um raforkuverð. Þó hafi verið nefndar tölur sem málsaðilar telji ásættanlegar.

Samkvæmt tímaramma verkefnisins er gert ráð fyrir að umhverfismat liggi fyrir árið 2009 og framkvæmdum við fyrsta áfangann, 60 þúsund tonna álver, verði að fullu lokið árið 2012, svo fremi að orkan fáist afhent á þeim tíma. Stóriðjunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur undanafarið ár unnið að markaðssetningu Þorlákshafnar með tilliti til stóriðju. Kjartan Ólafsson alþingismaður er formaður nefndarinnar og hann segir að áhugi Arctus sé uppskera þeirrar vinnu, að sögn blaðsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×