Innlent

Sýknaður af utanvegaakstri á Hengilssvæði

Landhelgisgæslan aðstoðaði lögregluna á Selfossi við eftirlit með utanvegaakstri í sumar.
Landhelgisgæslan aðstoðaði lögregluna á Selfossi við eftirlit með utanvegaakstri í sumar.

Karlmaður sem stöðvaður var á torfæruhjóli á slóða sem liggur niður Folaldadali frá Nesjavallavegi niður í Grafning hefur verið sýknaður af ákæru um utanvegaakstur. Slóðinn telst það vel greinanlegur og að nægilega löng hefð sé fyrir akstri vélknúinna farartækja á honum, þannig að hann telst vegur og því ekki um utanvegaakstur að ræða.

Fyrir dóminum báru meðal annars vitni jarðfræðingur sem sagðist telja að eftir slóðanum hafi verið keyrt í um það bil 25 ár, þar á meðal á stórvirkum vinnuvélum. Einnig bar maður sem starfar í ferðaþjónustu að eftir slóðanum hafi verið keyrt með ferðamenn þó að slíkt hafi ekki tíðkast síðustu árin. Loks greindi Jón Garðar Snæland, höfundur bókarinnar "Utan alfaraleiða" frá því að slóðanum sé lýst sem ökuleið í bókinni og að jeppaklúbburinn 4x4 hafi farið í skipulagðar ferðir eftir honum. Klúbburinn sé alfarið mótfallinn utanvegaakstri og því aki meðlimir hans ekki eftir þessum slóða eða öðrum telji þeir sig ekki vera á fullgildum vegi.

Myndir sem lagðar voru fram í dómnum sýndu greinilegan veg eða slóða: "Var greinilegt að ekki var eingöngu um að ræða slóða sem myndast hafði eftir dýr, svo sem kindagötu, heldur slóða sem sum staðar hafði verið keyrð möl í en sum staðar myndast för í jarðveginum eftir ökutæki og þá bifreiðar, traktora eða annars konar farartæki svo og væntanlega einnig dýr. Á hluta slóðans mátti einnig sjá að hann hafði verið ruddur að hluta."

Af þessum sökum var úrskurðað að vegurinn væri vegur og því ekki um utanvegaakstur að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×