Innlent

Launamunur landsliðanna skýrist ekki af stöðunni á FIFA-listanum

Mismunur á launakjörum leikmanna í landsliði karla og kvenna í fótbolta er í engu samræmi við stöðu liðanna á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Á meðan karlalandsliðið er í nítugasta og fimmta sæti, á eftir Malaví er kvennalandsliðið í tuttugasta og fyrsta sæti á eftir Spánverjum.

Upplýsingar um mismunun á greiðslum til kvenna og karla í knattspyrnulandsliðum Íslands hafa vakið athygli og umtal, en konurnar bera afar skarðan hlut frá borði miðað við leikmenn í karlalandsliðinu. KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær þar sem bent var á að kvennalandsliðið skilaði litlum sem engum tekjum. Það væru því tekjur sem karlalandsliðið skilaði sem héldi rekstri kvennalandsliðsins gangandi. Það sé þó verkefni komandi ára að jafna stöðu karla og kvennalandsliðsins.

Árangur karlalandsliðsins hefur ekki verið til að hrópa húrra yfir síðustu ár og eins og greint var frá í fréttum í liðinni viku þarf að fara langt niður á styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins til að finna karlalandslið Eiðs Smára og félaga. Það er í 95. sæti - á eftir Malaví. Drjúgur hluti af þróunaraðstoð Íslendinga fer einmitt til Malaví enda eitt af fátækustu ríkjum Afríku.

Þegar kemur að kvennalandsliðinu þarf ekki fara eins langt niður styrkleikalistann til að "finna stelpurnar okkar". Þær eru nú í 21. sæti á FIFA listanum, á eftir Spáni og undan Kóreu - og síðustu misseri hefur kvennalandsliðið verið í hópi vestrænna iðnríkja í 17.-21. sæti, þrátt fyrir auraleysið og takmarkaðan áhuga almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×