Innlent

Borar mjakast til Héðinsfjarðar úr báðum áttum

Hátt í hundrað manns vinna nú á tveimur stöðum við sprengingar og boranir vegna Héðinsfjarðarganga. Sprengingar hófust í Ólafsfirði í gær og í Skútudal á Siglufirði er búið að bora um 300 metra.

 

Töluverð byggð er sprottin upp við gamla flugvöllinn á Ólafsfirði. Vinnubúðir, skemmur og fullkomin steypustöð. Mikill mannfjöldi starfar við Héðinsfjarðargöng, dýrustu framkvæmd Vegagerðinnar til þessa, en göngin munu kosta um 8 milljarða króna og eru það Háfell og tékkneski verktakinn Metrostav sem sjá um framkvæmdir.

 

Ólafsfirðingar muna þá byltingu þegar Ólafsfjarðargöng voru grafin og ekki munu Héðinsfjarðargöng síður bæta öryggi vegfarenda og stytta ferðatíma. Sem dæmi lokaðist Lágheiðin fyrir skömmu vegna ófærðar, sem nú er ekið um milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, og þurftu Magnús verkefnisstjóri og félagar þá að aka hátt í 500 kílómetra vegalengd í gegnum Skagafjörð fram og til baka milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í desember 2009 munu menn skjótast á milli á nokkrum mínútum, aðeins 15 kílómetra vegalengd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×