Innlent

Halldór æðsti embættismaður norræns samstarfs

Halldór Ásgrímsson verður, sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, að öllum líkindum sá Íslendingur sem gegnt hefur áhrifamestu stöðunni á alþjóðavettvangi. Hann verður æðsti embættismaður norræns samstarfs.

Dæmi um Íslendinga í forystustörfum á alþjóðavettvangi eru fá. Nefna má að Kjartan Jóhannsson var framkvæmdastjóri Fríverslunarsamtakanna EFTA og Björn Sigurbjörnsson veitti forstöðu undirstofnun Matvæla- og Landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Þá komust þeir Andri Ísaksson, Steinar Berg Björnsson og Grímur Valdimarsson einnig í röð æðstu stjórnenda hjá undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Nú hefur Halldór Ásgrímsson valist til að stjórna Norrænu ráðherranefndinni en almennt er litið svo á að framkvæmdastjóri hennar sé valdamesti embættismaður norræns samstarfs. Um þrjátíu samnorrænar stofnanir, víðs vegar á Norðurlöndunum, heyra undir framkvæmdastjórann, og um hendur hans fer jafnframt megnið af þeim fjármunum sem varið er til norræns samstarfs, um tíu milljarðar króna á ári. Halldór verður með 70 til 80 manna starfslið á skrifstofu sinni í Kaupmannahöfn, og mun með starfinu geta talist sá Íslendingur sem komist hefur til hvað mestra metorða á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×