Innlent

Enn er grjóthrun í Óshlíð

Vegagerðin biður fólk um að vera ekki á ferð um Óshlíð í dag að tilefnislausu. Þar er enn hætta á grjóthruni.

Vegagerðin varar einnig við hálkublettum víða á Vestfjörðum og segir að hálka og hálkublettir séu líka víða á Norðaustur- og Austurlandi. Á Öxi er snjóþekja.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar um framkvæmdir segir að nú standi yfir lokahnykkurinn á færslu Sæbrautar milli Laugarnesvegar og Langholtsvegar. Í þessum áfanga þarf að gera lagnaþveranir, tengja gatnamót Sundagarða - Dalbrautar, ljúka uppsetningu umferðarljósa og ljúka malbikun á eystri hluta vegarins. Vegfarendur eru beðnir að sýna sérstaka aðgæslu. Samtímis er unnið við göngustíg og við lagnir meðfram Sæbraut milli Langholtsvegar og Sægarða.

Þá eru framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi við brúna yfir Nýbýlaveg, sem reiknað er með að standi út október. Vegfarendur eru beðnir um að sýna tillitsemi.

Og vegna vinnu við brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi má búast við umferðartöfum þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×