Innlent

Hrefnuveiðibátar tilbúnir á veiðar

Hrefnuveiðibátarnir Halldór á Ísafirði og Njörður í Kópavogi eru tilbúnir til veiða. Njörður gerði tilraun til veiða á fimmtudag og sigldi út á Faxaflóa en varð að snúa við sökum veðurs. Til stóð að báðir bátarnir færu út í dag en líkurnar eru taldar litlar vegna brælu. Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Félags Hrefnuveiðimanna, segist vonast til að minnsta kosti eitt dýr náist fyrir áramót svo hægt sé að koma vinnslunni af stað og hægt verði að taka sýni til rannsókna. Hrefnuveiðimenn hafa þó tækifæri til fyrsta september á næsta ári til að veiða þau þrjátíu dýr sem veiða má atvinnuskyni og segir Gunnar mikilvægt að klára þann kvóta áður en vísindaveiðarnar hefjast í vor. Félag hrefnuveiðimanna er þó ekki alveg aðgerðarlaust í dag því það mun sjá um hluta veitinga við opnun kosningaskrifstofu Jóns Gunnarsson, forstjóra Sjávarnytja, en hann bíður sig fram í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi, og verður þar boðið upp á hrefnuborgara í Bæjarlindinni í Kópavogi nú í hádeginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×