Innlent

Rúmlega fjögur þúsund hafa kosið

605 manns höfðu mætt á kjörstaði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík klukkan ellefu í dag en þá höfðu kjörstaðir verið opnir í klukkutíma. Í gær kusu 2734 en kosning hófst á hádegi og var opið til klukkan níu í gærkvöldi. Með utankjörfundaratkvæðum hafa því rúmlega fjögur þúsund manns tekið þátt í prófkjörinu en um tuttugu og eitt þúsund er á kjörskrá í Reykjavík.

Kosið verður á sjö stöðum í átta kjörhverfum í dag og kjörstaðiur verða opnir til klukkan sex síðdegis. Þá, klukkan sex, verða fyrstu tölur birtar. Endanleg úrslit liggja svo fyrir þegar líða tekur á kvöldið. Alls eru um 21 þúsund manns á kjörskrá, en sjálfstæðismenn gera sér vonir um allt að 12.000 manns greiði atkvæði.

Mikil spenna er fyrir prófkjörið. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sækist einn eftir fyrsta sæti á lista flokksins. Spennan er því öllu meiri um annað sætið en en um það keppa þeir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og alþingismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Pétur Blöndal. Sá sem hefur betur kemur til með að leiða annan af listum flokksins í Reykjavík. Alls sækjast nítján eftir níu efstu sætunum, 12 karlmenn og sjö konur.

 

Upplýsingar um kjörstaði og kjörhverfi á vef Sjálfstæðisflokksins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×