Innlent

Auðveldara að smygla

NFS greindi frá því á dögunum að í vor hefði Bandaríkjaher hætt að vinna úr upplýsingum frá frumratsjám ratsjárstöðva landsins. Í ratsjárstöðvunum eru tvenns konar ratsjár, annars vegar svokallaðar frumratsjár sem varpa stöðugt geisla út í loftið og staðsetja flugvélar á radar með endurkasti geislans og hins vegar svarratsjár, sem senda boð í svara sem er í öllum flugvélum sem vilja láta vita af sér. Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri, staðfestir að þetta þýði að ekki sé hægt að fylgjast með því hvort hingað fljúgi vélar sem vilja dyljast. Þar með sé möguleiki á að lenda á hvaða litla flugvelli sem er, utan alfaraleiðar, án þess að nokkur verði þess var. Þessar vélar geta þá verið með hvers konar ólöglegan farm - fíkniefni, fólk, vopn eða annað.

 

 

Þorgeir segir að ekki sé vitað til þess að nokkur hafi reynt að smygla farmi hingað til lands með þessum hætti, enda hafi verið virkt eftirlit þangað til í vor. Hann segir flugmálastjórn hafa öll tæki og þekkinguna sem til þurfi að vinna úr þessum upplýsingum og halda uppi eftirliti, en það sé stjórnvalda að ákveða hvort það skuli gert. Kostnaður við vinnslu þessara upplýsinga er heilmikill og ekki ljóst hver eigi að bera hann, nú þegar varnarliðið er farið. Um það ætla íslensk stjórnvöld væntanlega að reyna að semja á næstunni við NATO og Bandaríkjamenn, en á meðan verður ástandið áfram þannig að enginn fylgist með.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×