Sport

Hjörtur Hjartarson hefur lokið keppni

Úr leik ÍA og Keflavíkur
Úr leik ÍA og Keflavíkur

Hjörtur Júlíus Hjartarson leikmaður ÍA í Landsbankadeild karla leikur ekki meira með liðinu í sumar. Hann var í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann vegna framkomu sinnar í leik ÍA og Keflavíkur 23. júlí síðastliðinn. Guðmundur Viðar Mete leikmaður Keflavíkur sem átti þátt í þeirri uppákomu var dæmdur í eins leiks bann.

Hjörtur hefur viðurkennt í fjölmiðlum að hafa kallað Guðmund "Tyrkjadjöful" og sagt honum að "koma sér heim" í umræddum leik. Hjörtur heldur því hins vegar fram að Guðmundur hafi hótað sér líkamsmeiðingum inni á vellinum og látið óviðurkvæmileg orð í sinn garð falla sem hafi verið kveikjan að atvikinu. Aganefnd KSÍ fundaði síðdegis í gær og komst að þeirri niðurstöðu að báðir leikmennirnir yrðu látnir sæta leikbönnum, Hjörtur í tvo leiki en Guðmundur í einn leik.

Aganefndin rökstyður ekki úrskurði sína í agamálum á opinberum vettvangi. Þau vinnubrögð hafa tíðkast svo árum skiptir og stendur áfrýjun í málinu ekki til boða. Það mun því ekki skýrast nákvæmlega af hverju Guðmundur Mete var settur í leikbann þó beinast liggi við að það sé vegna orðaskipta hans og Hjartar í umræddum leik. Keflvíkingar hafa hins vegar neitað gagnásökunum Hjartar og eru vonsviknir með úrskurðinn.

Hjörtur sem stundur nám í Bandaríkjunum heldur utan síðar í mánuðinum en á þeim tíma verða aðeins tveir leikir á dagskrá hjá ÍA. Hann hefur því lokið keppni með liðinu í sumar.

En aganefndin úrskurðaði fleiri leikmenn úr Landsbankadeild karla í leikbann í gær. Skagamenn verða einnig án Igor Pesic í næsta leik gegn Valsmönnum en hann fékk eins leiks bann vegna 6 áminninga, Stig Krohn Haaland hjá Breiðabliki fékk eins leiks bann vegna 4 áminninga og missir af leik næsta leik liðsins gegn Grindavík, og að lokum fékk Keflvíkingurinn Baldur Sigurðsson eins leiks bann vegna 4 áminninga og missir eins og Guðmundur Mete af leiknum gegn KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×