Innlent

12 ára stúlka bjargaði haferni frá drukknun

Tólf ára Grundfirðingur sýndi mikið snarræði þegar hún handsamaði haförn sem féll í Kirkjufellslónið skammt fyrir innan Grundarfjörð. Má segja að hún hafi bjargað konungi fulganna frá drukknun.

Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir, 12 ára Grundfirðingur var í gærkvöldi ein á ferð á hesti sínum við Kirkjufellslón skammt frá heimabæ hennar. Á ferð sinni sá hún haförn, konung fuglanna, falla af himnum og ofan í lónið. Sigurbjörg beið ekki boðanna heldur synti á eftir erninum og dró hann í land.

Hún vafði svo vesti sínu utan um hann og fór með hann út á veg þar sem hún beið í tvo tíma eftir hjálp.

Örninn er nú kominn í Húsdýragarðinn til aðhlynningar en ljóst er að löng bið verður á því að hann fái að fara aftur út í frelsið enda er hann mjög lemstraður. Fyrst um sinn þurfi hann að safna kröftum en eftir það þurfi hann á nokkrum böðum að halda en hann er þakinn grút. Það sem er þó verst er að á hann vantar stélfjaðrirnar en ekki þykir ráðlegt að hleypa honum aftur í náttúruna án þeirra. Því gæti örnin þurft að vera í endurhæfingu á annað ár.

Tómas Ó. Guðjónsson forstöðumaður Húsdýra- og fjölskyldugarðsins áréttaði að þó stúlkan hefði sýnt mikla dirfsku við björgunina væri ekkert grín að lenda í arnarklóm enda launaði fuglinn Sigurbjörgu björunina með því að grípa um hana þéttingsfast með klónum.

Sigurbjörg virtist þó ekki reiðari en svo að í samtali við NFS sagði hún að ætlunin væri að heimsækja fuglinn eins fljótt og hún gæti en hér má sjá tilvonandi heimkynni hans. Sigurbjörg sagði einnig að hún væri búin að gefa honum fuglinum nafn, það er Sigurörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×