Innlent

Boranir í nágrenni Húsavíkur

MYND/KK

Boraðar verða þrjár háhitaholur á Kröflusvæðinu og þeystareykjasvæðinu fyrir rúmlega hálfan milljarð króna í sumar vegna hugsanlegs álvers við Húsavík. Húsnæðisverð hefur hækkað í Húsavík og Alcoa hefur ráðið kynningarfulltrúa fyrir svæðið.

Landsvirkjun bauð í gær út smíði og uppsetningu á holutoppum og blástursbúnaði fyrir tvær holur, en þegar er búið að bora eina 2,200 metra djúpa holu í Bjarnarflagi. Risaborinn Jötunn er nú að bora aðra álíka holu á svonefndu Vestursvæði og að því búnu verður borað að þeystareykjum. Allar þessar holur eru miðaðar við raforkuframleiðslu eins og þær eru, en engin kaupandi er hinsvegar að þeirri orku, nema að álver komi til. Reynist mikil orka á Vestursvæðinu, eins og vonir standa til, og verði ákveðið að reisa álver við Húsavík, verður væntanlega reyst nýtt orkuver á Vestursvæðinu.

Mikill hugur er í mörgum Húsvíkingum og fer húsnæðisverð þar hækkandi, sem rakið er til álversumræðunnar. Þá hefur álfyrirtækið Alcoa ráðið

Kristján Þ. Halldórsson rekstrarverkfræðing sem verkefnisstjóra samfélagsmála fyrir Alcoa á Norðurlandi. Kristján mun starfa við undirbúningsvinnu vegna hugsanlegs álvers og sjá um að miðla upplýsingum um Alcoa og hugsanlegt álver til hagsmunaaðila á Norðausturlandi, svo sem sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×