Innlent

Helmingaskipti á nefndaformönnum í borginni

Formennsku í lykilnefndum Reykjavíkurborgar verður skipt til helminga milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þrátt fyrir að stærðarhlutföll flokkanna í borgarstjórn séu sjö á móti einum.

Þá stefna flokkarnir að því að 45 prósenta hlutur Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun verði seldur, að því gefnu að samningar náist við ríkið um viðunandi verð.

Rætt um að Guðlaugur Þór Þórðarson verði stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrri tvö árin en Björn Ingi Hrafnsson seinni tvö.

R-listinn er að hverfa frá völdum í Reykjavík og í morgun kom borgarráð saman í síðasta sinn á kjörtímabilinu, sem lýkur formlega um helgina. Þessum síðasta borgarráðsfundi stýrði Alfreð Þorsteinsson. Eftir helgi sest flokksbróðir hans, Björn Ingi Hrafnsson, í formannsstólinn um leið og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verður borgarstjóri. Sáttmáli nýs meirihluta er að verða tilbúinn og verður hann kynntur á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar næstkomandi þriðjudag.

Athygli vekur að nýju meirihlutaflokkarnir munu þrátt fyrir ólík stærðarhlutföll skipta völdum yfir lykilnefndum og ráðum til helminga á milli sín. Sjálfstæðisflokkur mun þannig fá formennsku yfir skipulagsráði, velferðarráði, menntaráði og umhverfisráði meðan Framsóknarflokkurinn fær formennsku yfir borgarráði, framkvæmdaráði, íþrótta- og tómstundaráði og menningar- og ferðamálaráði. Þá verður formennsku í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum skipt þannig að víxlað verður á milli flokkanna á miðju kjörtímabili.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður og fráfarandi borgarfulltrúi er nú nefndur sem næsti formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur en búist er við framsóknarmenn tefli fram Birni Inga Hrafnssyni seinni tvö árin. Formennska Guðlaugs Þórs fæst þó ekki staðfest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×