Innlent

Hegningarhúsið tekur lit

Hegningarhúsið gamla við Skólavörðustíg er nú að varpa af sér grámanum og taka lit í sólinni, að minnsta kosti á einni hliðinni. Málaranemar við Iðnskólann í Reykjavík eru nú að leggja lokahönd á málverk sitt á austurvegg Hegningarhússins, sem snýr að Sparisjóðshúsinu við Skólavörðustíginn.

Útibússtjórn SPRON leitaði til Iðnskólans með það verkefni að lífga upp á útsýnið út um Vesturglugga sparisjóðshússins. Veggurinn var skreyttur af listmálurum á sjötta áratugnum en upp á síðkastið hefur veggurinn verið frekar litlaus.

Nemendur héldu hugmyndasamkeppni um hönnunina og bestu tillögurnar eru nú að verða tilbúnar á veggnum. Það er ekki oft sem hugmyndaauðgi og listfengi málara fær að njóta sín. Að sögn Helga Grétars Kristinssonar, deildarstjóra málaradeildar Iðnskólans, fara flestir húsamálarar í hefðbundin málarastörf þegar námi sleppir. Hins vegar sé skreytimálun og skiltamálun hluti af því námi sem allir málarar gangi í gegnum og því eigi allir að kunna tæknina. Almenningur geri sér oft ekki grein fyrir þeim möguleika að biðja málara um veggskreytingar en þetta kunni þeir og geti. Hann segir ekki vera mikið um skreytimálun en þó alltaf einhver verkefni, sérstaklega í viðhaldi gamalla viðarveggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×