Innlent

Porti Hafnarhússins breytt í óperusal

Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi.
Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Mynd/Vísir

Heldur óvenjuleg óperusýning var frumsýnd í porti Hafnarhússins í kvöld. Óperan Föðurlandið, Le Pays, fjallar um ástir fransks sjómanns og íslenskrar sveitastúlku og margt bendir til að óperan byggi á sönnum atburðum.

Fjöldi þekktra listamanna kemur að óperunni en verkið er flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og þremur af þjóðþekktum söngvurum þeim Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Bergþóri Pálssyni og Gunnari Guðbjörnssyni Uppsetning óperunnar er sérstök fyrir margar sakir en aldrei áður hefur óperusýning verið sett upp í Hafnarhúsi svo vitað sé. Óperan var samin á árunum 1908-1910 af frakkanum Joseph Goy Ropartz. Sýningin var frumflutt í Nancy í Frakklandi 1912 og aftur ári síðar en svo virðist sem óperan hafi ekki verið flutt síðan í heild sinni á sviði svo vitað sé síðan þá. Margt bendir til að óperan sé byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað við Hornafjörð árið 1873 þegar fimm franskar skútur fórust og aðeins einn maður komst af. Maðurinn fékk aðhlynningu á bænum Vestra-Horni og er talið að ástir hafi tekist með honum og heimasætunni á bænum. Sjómaðurinn var síðar sóttur af frönsku eftirlitsskipi og talið er að hann hafi rakið raunir sínar fyrir skipsáhöfninni og saga hans hafi síðar orðið kveikja af smásögu og óperunni sem um ræðir.

Síðari sýning á óperunni verður á morgun klukkan 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×