Erlent

Blóðug mótmæli í Kólumbíu

MYND/AP

Að minnsta kosti einn lést í fjölmennum mótmælum sem brutust út í þorpinu Piendamo í Kólumbíu í gær. Að sögn forvígismanna mótmælanna voru þau tilkomin vegna nýs fríverslunarsamnings kólumbískra yfirvalda við Bandaríkin og væntanlegt endurkjör forseta Kólumbíu, Alvaro Uribe, í kosningum síðar í mánuðinum.

Þrjátíu manns slösuðust í mótmælunum, þar af fimm alvarlega, en talið er að fjöldi mótmælenda hafi verið um sex þúsund. Lögregla beitti bæði táragasi og skotvopnum og að sögn stjórnvalda í Kólumbíu lést einn bóndi af skotsárum.

Kólumbískir bændur eru mjög mótfallnir fríverslunarsamningnum við Bandaríkin þar sem þeir óttast um hag sinn í framtíðinni ef bandarískar landbúnaðarafurðir fara að flæða inn í landið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×