Innlent

Járnblendistörf kunna að flytjast til Íslands

Á næstunni verður tekin ákvörðun um að bæta við framleiðslu Íslenska járnblendifélagsins. Norska ríkisútvarpið segir að 120 störf séu í hættu í Aalvik í Harðangri ef svo fer sem horfir að framleiðsla á magnesíum kísiljárni flytjist frá Noregi til Íslands. Ingimundur Birnir forstjóri Íslenska járnblendifélagsins segir að á næstu mánuðum verði tekin ákvörðun um málið - en að um 30 - 40 viðbótarstörf sé að ræða á Íslandi. Ekki þurfi viðbótarorku. Tilgangurinn sé að lengja framleiðslukeðjuna hér á landi. Varan sem hér er framleidd verður þá ekki einungis fljótandi kísiljárn heldur er magnesíum bætt við og þá verður til vara sem hægt er að selja fyrir hærra verð á sérhæfðari markaði. Hinn norski eigandi, Elkem, tekur væntanlega ákvörðun fyrir haustið. Ef hún er jákvæð hefst framleiðsla haustið 2007 og verður komin í fullan gang fyrir nóvember á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×