Innlent

Skilinn eftir í blóði sínu í Heiðmörk

Ungur maður fannst liggjandi í blóði sínu í Heiðmörk í gærkvöldi. Maðurinn vildi ekki tjá sig um málsatvik við lögreglu en heimildamenn fréttastofu segja að hann hafi verið barinn af þekktum misyndismönnum. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að maðurinn hafi verið staddur í heimahúsi í Garðabæ um klukkan tíu í gærkvöld þegar menn sem þekktir eru í undirheimum bæjarins bönkuðu upp á og báðu hann að koma út í bíl og tala við sig.

Maðurinn varð við beiðninni og fór sjálf viljugur inn í bíl þeirra þar sem hann var beðinn um að hafa samband við annan mann sem misyndismennirnir vildu ná tali af.

Þegar hann svo varð ekki við þeirri bón óku þeir með hann á brott, sem leið lá upp í Heiðmörk þar sem þeir börðu hann og skildu hann eftir liggjandi í blóði sínu. það var svo um klukkustund síðar sem hestamaður reið fram á manninn og kallaði eftir aðstoð lögreglu. Að sögn lögreglunnar í Kópavogi hefur ungi maðurinn ekki viljað staðfesta þessa frásögn, líkast til af hræðslu við að hljóta verra af. Hann var fluttur á slysadeild Landspítalans í Fossvogi með innvortis blæðingar. Ekki er vitað að svo stöddu hvort hann þurfi að gangast undir aðgerð eða ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×