Innlent

Eyþór Arnalds handtekinn fyrir ölvunarakstur

Eyþór Arnalds, oddviti á lista Sjálfstæðismanna í Árborg, var handtekinn ásamt unnustu sinni í nótt, en þau eru grunuð um að hafa ekið ölvuð á ljósastaur og flúið af vettvangi. Eyþór gisti fangageymslur í nótt en var sleppt í dag eftir að játning lá fyrir.

Klukkan rúmlega eitt í nótt var jeppabifreið ekið á ljósastaur á Kleppsvegi með þeim afleiðingum að ljósastaurinn lagðist á hliðina. Bíllinn skemmdist ekki það mikið að hann var ökufær á eftir. Ökumaður ók af vettvangi en vitni að atburðinum lét lögreglu vita.

Lögregla brást skjótt við og náðist ökumaðurinn ásamt farþega í Ártúnsbrekunni. Samkvæmt heimildum NFS voru þarna á ferð Eyþór Arnalds, oddamaður á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg og unnusta hans og voru bæði grunuð um ölvun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru hin grunuðu flutt á lögreglustöð þar fangageymslur biðu þeirra.

Í dag var skýrslur teknar og segir varðstjóri lögreglu að ökumaðurinn hafi játað brot sitt og verið sleppt í kjölfarið. Málið teljist því upplýst. NFS hefur ekki náð tali af Eyþóri í dag og hefur því ekki upplýsingar um hvort og hvernig hann muni bregðast við eftir að hremmingar næturinnar.

Pólitísk staða Eyþórs í Árborg hefur verið afar sterk. Hann sigraði með yfirburðum í prófkjöri í sveitarfélaginu og hefur haft afar sterka stöðu samkæmt sköðanakönnunum. Félagsvísindastofnun mældi fylgi flokkana í Árborg fyrir og hafði fylgi Sjálfstæðisflokksins þá tvöfalldast frá síðustu kosningum - farið úr 25 prósentum í 51 prósent.

Flestum ber saman um að þessi mikla fylgisaukning hafi að stórum hluta skrifast á ferska innkomu Eyþórs í hina pólitísku baráttu í Árborg. Eyþór Arnalds flutti nýverið ásamt unnustu sinni á bæinn Hreiðurborg sem er miðja vegu á milli Selfoss og Eyrarbakka.

Hann hefur verið borgarfulltrúi í Reykjavík og var á sínum tíma jafnvel orðaður við að oddastöðu í borgarpólitíkinni. Eyþór var framkvæmdastjóri Íslandssíma og er þekktur fyrir tónlistarstörf - einkum í hljómsveitinni Todmobile.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.