Innlent

Slökkvistarfi lokið við Hvaleyrarvatn

Ræktarland Lækjarskóla við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði er illa farið eftir sinubruna sem kom upp á ræktunarsvæði Skógræktar Hafnarfjarðar fyrr í dag. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um brunann klukkan eitt í dag og barðist við eldinn í um klukkustund en hann hafði læst sig í tré á svæðinu. Litlu mátti muna að eldurinn bærist í skógræktarskika Hákons Bjarnasonar, fyrrverandi skógræktarstjóra, sem er mun þéttari en skikinn sem brann og var það því lán í óláni að ekki var hvassara á svæðinu. Talið er að um tveir til þrír hektarar hafi brunnið en nemendur Lækjarskóla hafa undanfarin 25 ár unnið að uppgræðslu hans. Grunur leikur á um að kveikt hafi verið í sinunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×