Erlent

Ahmadinejad segist hvergi banginn við árásir

Mahmoud Ahmadinejad á spjalli við forsetaritarann í Íran.
Mahmoud Ahmadinejad á spjalli við forsetaritarann í Íran. MYND/AP

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans segir Írana ekki vera hrædda við árásir Bandaríkjamanna og telur ólíklegt að Vesturveldin láti til skarar skríða og ráðist á Íran vegna kjarnorkuáætlunar landsins.

Ahmadinejad er nú á opinberu ferðalagi um Indónesíu. Fjöldi fólks beið fyrir utan Istiqlal moskuna í Jakarta, til að berja forsetann augum, þegar hann gekk til föstudagsbæna þar. Lítill hópur mótmælenda hrópaði "berjumst við Bandaríkin, berjumst við Ísrael."

Í sjónvarpsviðtali í morgun ákallaði Ahmadinejad öll "frjáls" lönd að "standa við hlið Írans til að viðhalda sjálfstæði og frelsi." Hann taldi mjög ólíklegt að til stríðs kæmi milli Bandaríkjanna og Írans.

Ahmadinejad hefur verið ákaft fagnað í Indónesíu, sem er fjölmennasta múslimaríki í heimi. Gagnrýni hans á stríðsrekstur Bandaríkjanna í Írak og Afganistan, sem margir múslimar álíta árás á Íslam, og ákveðin afstaða hans gegn alþjóðasamfélaginu, að láta ekki undan þrýstingi um að láta af auðgun úrans, á sér mikinn hljómgrunn, sérstaklega meðal yngri Indónesa.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í vikunni að fresta því að setja Íran afarkosti, og var ákveðið að gefa Írönum tvær vikur til viðbótar til þess að endurmeta afstöðu sína til auðgunar úrans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×