Erlent

Flúið undan eldgosi í Indónesíu

MYND/AP

Beita hefur þurft fortölum til þess að fá fólk til að flýja undan eldgosi í Merapi-fjalli á Indónesíu. Óttast er að eldský grandi þeim sem ekki koma sér undan, eins og gerðist í síðasta eldgosi árið 1994.

Þúsundir hafast nú þegar við í flóttamannaskýlum en margir hafa þráast við að yfirgefa heimili sín, ef ekki er kostur að taka búféð með, en það er oft eina viðurværi fjölskyldna í héraðinu. Varaforseti Indónesíu, brýndi fyrir yfirvöldum í héraðinu að flýta brottflutningi fólksins eftir því sem kostur er. Viðbúnaður vegna eldfjallsins er á hæsta stigi og vel er fylgst með framvindu gossins.

Eldfjallið, sem er tæplega 3000 metra hátt spýr nú öskustókum yfir 600 metra í loft upp og glóandi hraunkvikan dælist út úr gígnum.

Eldgosið hefur staðið í rúmar þrjár vikur, en eldfjallið Merapi er eitt 129 virkra eldfjalla í Indónesíu. 60 manns fórust þegar eldský þeysti niður hlíðar fjallsins árið 1994 og 1300 manns fórust í svipuðum hamförum árið 1930.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×