Innlent

Virkjun formælt í hornsteininum

Forseti Íslands kom beiðninni á framfæri við Landsvirkjun.
Forseti Íslands kom beiðninni á framfæri við Landsvirkjun. MYND/Heiða
Skilaboð frá andstæðingum Kárahnjúkavirkjunar verða í hornsteininum sem lagður verður að stöðvarhúsinu í Fljótsdal. Landsvirkjun ákvað þetta eftir að forseti Íslands hafði milligöngu um að koma beiðni andstæðinga virkjunarinnar á framfæri.

Sú mikla andstaða sem hefur verið við Kárahnjúkavirkjun verður römmuð inn í aflstöð virkjunarinnar í hornsteini. Ákveðið hefur verið að skjal með skilaboðum andstæðinga virkjunarinnar verður í blýhólki í hornsteini virkjunarinnar sem verður lagður á morgun.

Það er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem leggur hornsteininn og það er eftir aðkomu hans að málinu sem ákveðið var að málstaður andstæðinga virkjunarinnar fengi inni í sjálfri aflstöð virkjunarinnar. Virkjunarandstæðingar báðu forsetann að hlutast til um að málstaður þeirra yrði lagður í hornsteininn rétt eins og yfirlýsing Landsvirkjunar. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsvirkjun greindi forseti forstjóra og stjórnarformanni Landsvirkjunar frá þessari beiðni en kvaðst sjálfur engar ákveðnar óskir hafa í þessum efnum. Niðurstaðan varð þó sú að eftir að hafa heyrt þetta frá forseta ákváðu forsvarsmenn Landsvirkjunar að verða við tilmælunum. Því segir meðal annars í hornsteininum að þarna séu framin mestu náttúruspjöll af mannavöldum á Íslandi og að stjórnvöld hafi kerfisbundið beitt sér fyrir því að lýðum yrði ekki ljóst hversu mikil spjöll yrðu framin þarna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×